Tilnefning til Íslensku Safnaverðlaunanna

30.4.2024

Listasafn Íslands er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna fyrir Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi. Verkefnið Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi miðar að því að auka aðgengi barna og ungmenna að menningarfi þjóðarinnar sem finna má í söfnum landsins. Sjónarafl er byggt á þróunarverkefni sem fræðsludeild Listasafns Íslands hefur unnið að undanfarin ár og byggir á alþjóðlegum rannsóknum í myndlæsi. Kennsla í myndlæsi eykur þekkingu yngri safngesta á myndlist, eflir gagnrýna hugsun, rökhugsun og hugtakaskilning ásamt því að þjálfa nemendur í virkri hlustun og skoðanaskiptum. Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi var þróað og unnið í samstarfi við Barnaskóla Hjallastefnunnar árin 2021-2022. Verkefnið miðar með markvissum hætti að því að tengja kennslu í myndlæsi og listasögu við skólakerfið og auka þekkingu nemenda á menningarsögu og myndlist. Að þróunarverkefni loknu varð til mikilvægt efni sem gefið var út í rafrænu formi sem og í prentaðri útgáfu. Með því er jafnframt stuðlað að aukinni þátttöku kennara og nemenda óháð búsetu. Þannig er komið til móts við skóla á landsbyggðinni sem hafa ekki sama svigrúm til safnaheimsókna og skólar á höfuðborgarsvæðinu.

Brot út rökstuðningi dómnefndar ,, Verkefnið hefur mikilvægu samfélagslegu hlutverki að gegna enda eitt meginmarkmið þess að efla myndlæsi meðal almennings og dýpka þekkingu og áhuga á myndlist. Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi er einstaklega vel unnið, faglegt og metnaðarfullt fræðsluverkefni þar sem myndlist og menning er kennd á framsækinn og áhugaverðan hátt. Verkefnið er skýrt og hnitmiðað og tenging skóla og safnastarfs er framúrskarandi en hentar einnig fullorðnum og almennum safngestum. Styrkur verkefnisins er sá að auðvelt er að aðlaga það mismunandi aldri, óháð búsetu. Einnig er auðvelt að yfirfæra aðferðina á safnkost annarra safna sem stuðlar að auknu samstarfi. Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi setur metnaðarfull og fagleg viðmið í fræðslustarfi. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar."

Við erum einstaklega stolt af þessari viðkenningu og verkefninu í heild sinni.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17